51. fundur
atvinnuveganefndar á 141. löggjafarþingi
haldinn í Austurstræti 8-10, mánudaginn 4. mars 2013 kl. 15:23


Mættir:

Björn Valur Gíslason (BVG), kl. 15:43
Einar K. Guðfinnsson (EKG), kl. 15:27
Jón Gunnarsson (JónG), kl. 15:23
Lilja Rafney Magnúsdóttir (LRM), kl. 15:23
Logi Már Einarsson (LME), kl. 15:23
Ólína Þorvarðardóttir (ÓÞ), kl. 15:23
Sigurður Ingi Jóhannsson (SIJ), kl. 15:23

EKG yfirgaf fundinn kl. 17:52.
JRG boðaði forföll.
ÞSa var fjarverandi.

Nefndarritari: Benedikt Sveinbj. Benediktsson

Bókað:

1) Fundargerðir síðustu funda. Kl. 17:58
Fyrir fundinn voru lögð drög að fundargerðum 47.-50. funda nefndarinnar. Gerðardrögin voru samþykkt.

2) 502. mál - ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi Kl. 15:24
Á fund nefndarinnar komu Þórður Reynisson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og Jón Ásgeir Tryggvason og Kristján Gunnarsson frá Ríkisskattstjóra. Jón og Kristján kynntu nefndinni afstöðu Ríkisskattstjóra til málsins. Gestirnir svöruðu spurningum nefndarmanna.

3) 565. mál - ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 217/2012 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn Kl. 15:56
Á fund nefndarinnar kom Ólafur Egill Jónsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Ólafur kynnti nefndinni málið og svaraði spurningum nefndarmanna.

4) 488. mál - umgengni um nytjastofna sjávar Kl. 16:48
Á fund nefndarinnar komu Friðrik J. Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Guðbergur Rúnarsson og Guðmundur Smári Guðmundsson frá Samtökum fiskvinnslustöðva, Bjarni Áskelsson frá Reiknistofu fiskmarkaða og Ragnar H. Kristjánsson frá Fiskmarkaði Suðurnesja, Ólafur Arnarson og Jón Steinn Elíasson frá Samtökum fiskframleiðenda og útflytjenda, Björg Ásta Þórðardóttir frá Félagi atvinnurekenda og Jón Gunnar Björgvinsson frá Samtökum íslenskra fiskimanna. Gestirnir kynntu nefndinni afstöðu til þingmálsins og svöruðu spurningum nefndarmenna að því loknu.

5) 417. mál - skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins Kl. 15:48
Nefndin ræddi málið.
Lögð var fram tillaga um að EKG yrði framsögumaður málsins. Tillagan var samþykkt.

6) 236. mál - merking á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu Kl. 15:51
Nefndin ræddi málið.
Lögð var fram tillaga um að ÓÞ yrði framsögumaður málsins. Tillagan var samþykkt.

7) 282. mál - búfjárhald Kl. 16:15
Nefndin ræddi málið.

8) 283. mál - velferð dýra Kl. 16:24
Nefndin ræddi málið.

9) Önnur mál. Kl. 16:14
ÓÞ lagði fram eftirfarandi bókun:
"Frumvarp til laga um stjórn fiskveiða (570. mál) er útfærsla þeirrar samningaleiðar sem varð niðurstaða starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, svokallaðrar sáttanefndar sem skipuð var í upphafi kjörtímabils með fulltrúum allra hagsmunaaðila í sjávarútvegi auk fulltrúa stjórnmálaflokkanna.
Niðurstaða sáttanefndarinnar varð sú að endurskoða bæri fiskveiðistjórnunarkerfið „með sjálfstæðri löggjöf sem taki hliðsjón af auðlindastefnu almennt er byggist á hugmyndum um samningaleið“. Taldi meiri hluti starfshópsins rétt að gerðir verði „samningar um nýtingu aflaheimilda og þannig gengið formlega frá því að auðlindinni sé ráðstafað af ríkinu gegn gjaldi og að eignarréttur ríkisins sé skýr. Samningarnir skulu m.a. fela í sér ákvæði um réttindi og skyldur samningsaðila, kröfur til þeirra sem fá slíka samninga, tímalengd og framlengingu samninga, gjaldtöku, aðilaskipti, ráðstöfun aflahlutdeilda sem ekki eru nýttar, meðferð sjávarafla o.fl.“ (bls. 13).
Þá var meiri hluti starfshópsins sammála um „að mæla með að aflaheimildum verði skipt í „potta“ þar sem annars vegar eru aflahlutdeildir og hins vegar bætur og ívilnanir, s.s. byggðakvóti, strandveiðar og aðrar sérstakar ráðstafanir“. Áréttaði meiri hluti hópsins að gætt skuli „jafnræðis við úthlutun nýrra aflaheimilda eða heimilda sem komi til endurúthlutunar með opinberum markaði“ (bls. 13).
Frumvarp til laga um stjórn fiskveiða (570. mál) er útfærsla á þessum megin niðurstöðum sáttanefndarinnar frá 2010. Jafnhliða er því ætlað að mæta markmiðum stjórnarsáttmálans um „innköllun og endurúthlutun aflaheimilda á 20 árum“ í því skyni að efla atvinnu og byggð í landinu og koma til móts við sjónarmið um jafnræði, nýliðun og atvinnufrelsi.
Forsenda þess að réttlæta megi 20 ára nýtingarleyfi til núverandi kvótahafa er að til hliðar við flokk I sé opinn, vaxandi og frjáls markaður fyrir leigu aflaheimilda á kvótaþingi. Slíkur markaður hefur ekki verið til staðar í núverandi kerfi en verður nú til, með því að öll leiguviðskipti með aflaheimildir verða að fara fram á kvótaþingi. Á það við um aflaheimildir úr leigupotti (20 þús. tonn í upphafi) auk 25% af veiddum aflaheimildum nýtingarleyfa. Verður það að teljast til mikilla bóta fyrir kvótalitlar og kvótalausar útgerðir víða um land og þar með umtalsverð bót fyrir byggðir landsins.
Sá ágalli er á frumvarpinu að ekki skuli gengið enn lengra til móts við jafnræðis- nýliðunar- og atvinnufrelsissjónarmið með: stærri leigumarkaði fyrir aflaheimildir, lögbundnu lágmarkshlutfalli óunnins afla á innlendan markað til fiskvinnslu, bókhaldslegum aðskilnaði veiða og vinnslu, því að bjóða aflaheimildir í nýjum tegundum upp á markaði,breyttri framkvæmd strandveiðanna í þá veru sem ég hef lagt til í frumvarpi um strandveiðar (mál 219, þskj. 227).
Frumvarp til laga um stjórn fiskveiða (570. mál) er málamiðlun margra sem að því hafa komið á þeim fjórum árum sem málið hefur verið til meðferðar í þinginu. Ég samþykki þessa málamiðlun þar eð ég tel að frumvarpið sé þrátt fyrir annmarka sína ótvírætt skref til bóta fyrir þá sem harðast hafa orðið úti af völdum núverandi kvótakerfis."

LME lagði fram eftirfarandi bókun:
"Í langan tíma hefur verið djúpur ágreiningur í samfélaginu um stjórn fiskveiða. Fyrirliggjandi frumvarp er skref í þá átt að brúa bil milli ólíkra sjónarmiða um leið og þess er gætt að hámarka þjóðhagslegan arð af fiskveiðum. Frumvarpið hefur afar mikilvæg markmið að leiðarljósi: Að skapa umgjörð um sjálfbæra nýtingu fiskveiðiauðlinda þjóðarinnar og tryggja henni sanngjarnan og réttmætan arð af þeim.
Um leið og tekið er undir meginhluta nefndarálitisins vil ég halda til haga nokkrum atriðum frumvarpsins enda tel ég að þau séu ekki til þess fallin að styrkja markið þess.
Lokamálsgrein 8. gr.
Í frumvarpinu eru stigin mikilvæg skref í þá átt að auka vægi byggða- og jafnræðissjónarmiða við úthlutun veiðiheimilda. Um leið og því er fagnað hefur undirritaður efasemdir um lokamálsgrein 8. gr. Þar er kveðið á um að verði heildarafli þorsks fyrir meiri en 240.000 lestir skuli 50% aflamarks sem umfram það er ráðstafað í flokk 1 og 50% í flokk 2.
Bent hefur verið á að slíkt sé til þess fallið að auka óhagkvæmni veiða auk þess sem það gæti ýtt undir offjárfestingu. Þá má taka undir sjónarmið þeirra sem telja að þetta feli í sér ósanngirni gagnvart þeim sem tekið hafa á sig skerðingar til að byggja upp fiskistofninn.
Skoða ætti þann möguleika að flokkur 2 verði fastsettur sem hlutfall af heildaraflahlutdeildum og taki síðan sömu hlutfallslegu breytingum og flokkur 1.
Lokamálsgrein 11. gr.
Greinin fjallar m.a. um grundvallarbreytingu á úthlutun fiskveiðiheimilda. Horfið er frá ótímabundinni veitingu aflahlutdeilda en að í þess stað verði veitt tímabundið nýtingarleyfi til 20 ára. Ráðherra er síðan falið að leggja fram frumvarp eigi síðar en í desember 2016, þar sem mælt verði fyrir um ráðstöfun nýtingarleyfa og aflahlutdeilda að liðnum þeim tíma sem ákveðin er í 1. mgr. 11. gr. Í ljósi þess hversu mikilvæg greinin er verður að teljast afar óheppilegt að endanleg lausn felist ekki í frumvarpinu.
Lokamálsgrein 12. gr.
Í lokamálsgrein 12. gr. er framsal aflahlutdeilda takmarkað við það magn í þorskígildum talið sem var skráð á viðkomandi nýtingarleyfi við upphaf fiskveiðiársins 2013/2014.
Í þessu fellst mismunun auk ýmissa annarra ágalla sem nokkrir umsagnaraðilar gerðu grein fyrir. Því er lagt til að þetta ákvæði verði fellt brott og leitað verði annarra leiða til þess að takmarka framsal ef vilji löggjafans stendur til þess.
Tengdir aðilar skv. 31. gr.
Í greininni er mælt fyrir um að tengdir aðilar teljist aðilar þar sem annar á beint eða óbeint 30% hlutafjár í hinum. Sambærilegt hlutfall í gildandi lögum er 50%. Því er um töluverða breytingu að ræða. Í ljósi þess að ekki eru færð nein efnisrök fyrir breytingunni í athugasemdum frumvarpsins er eðlilegt að farið verði betur í saumana á þessu ákvæði.
Það er von mín að horft verði til framangreindra atriða í áframhaldandi meðförum þingsins á frumvarpinu, þannig að það verði enn líklegra að markmiðið þess nái fram að ganga."

Nefndin ræddi hugmyndir um dagskrár næstu funda nefndarinnar.

Fundi slitið kl. 18:53